Karate er einstaklingsíþrótt. Iðkendur æfa íþróttina á eigin forsendum og stunda því karate af ólíkum ástæðum; líkamsrækt, sjálfsvörn eða keppnisíþrótt, meðan aðra vantar lipurð eða aga. Geta einstaklinga er misjöfn, en aðalatriðið er að gera eins vel og mögulegt er, og helst aðeins betur.
Markmið iðkenda á að snúast um persónulegar framfarir. Litlu máli skiptir hvort sá sem æfir við hlið þér er fljótari eða gerir fleiri armbeygjur, því á meðan þú gerir þitt besta er tilganginum náð.
Karatefélag Akureyrar hefur ekki lagt áherslu á keppnir, en ef einstaklingur vill og þegar félagið er komin með leyfi til að taka þátt í keppnum, þá er það sjálfsagt að þjálfarar aðstoði. Ekki er leyfilegt að taka þátt í keppnum undir merki félagsins án leyfis yfirþjálfara.
Agi, virðing, hæverska og kurteisi
Samkvæmt hefðum íþróttarinnar er lögð mikil áhersla á aga og virðingu. Þjálfarar þurfa að halda uppi aga sem oft getur verið erfitt þegar um er að ræða stóran hóp iðkenda. Í sumum tilvikum eru börn óvön aga og geta tekið því illa í að þurfa að hlíta ákveðnum reglum, en í flestum tilvikum kunna krakkarnir vel að meta þetta og oft er gaman að sjá hvernig mestu ólátabelgirnir breytast smátt og smátt í bestu karatekrakka.
Karateþjálfun
Karate er einhver sú besta líkamsrækt sem hægt er að stunda. Hver einasti vöðvi í líkamanum þjálfast upp með einum eða öðrum hætti.
Í karate eru mikið af teygju æfingum þannig að sá sem það stundar er fljótur að ná upp liðleika. Karate iðkun eykur einbeitingu, styrk og þol, snerpu, samhæfingu auk þess sem sjálfstraust eykst og líkamsvitund batnar.
Auk þess að vera mjög góð líkamsrækt lærist sjálfsvörn, sjálfsstjórn og sjálfsagi. Allt eru þetta hlutir sem gagnast fólki í þeim verkefnum sem það þarf að takast á við lífinu í nútíma samfélagi sem einkennist af hraða og streitu.